Æfingar á sviðsverkinu Djöfulsins snillingur eru hafnar.
Ljósmynd: Klaudia Kaczmarek.
Þessi nýja kafkaíska tragíkómedía frá alþjóðlega leihópnum Reykjavík Ensemble fjallar um árekstra milli sjálfsmyndar listamanns og veruleika innflytjanda.
Verkið verður flutt af fimm atvinnuleikurum frá fimm löndum. Aðalhlutverkið er í höndum Jördis Richter, sem leikur innflytjandann og listakonuna Uriela. Í öðrum hlutverkum eru þau Jordic Mist, Heidi Bowes, Paul Gibson og Snorri Engilbertsson. Leikritið er skrifað af Ewa Marcinek og Pálínu Jónsdóttur. Leikmynd og búningar eru hannaðir af Klaudia Kaczmarek með listrænni aðstoð Wiola Ujazdowska, hljóðmynd og tónlist er eftir ástralsk-íslenska tónskáldið Ben Frost. Leikstjóri er Pálína Jónsdóttir, önnur stofnanda Reykjavík Ensemble.
Alþjóðlegi leikhópurinn Reykjavík Ensemble skapar ný frumsamin sviðslistaverk með og fyrir fjölþjóðlega og fjöltyngda listamenn hér á landi í samstarfi við íslenskt sviðslistafólk. Hópurinn vinnur nú að sínu fjórða leikverki Djöfulsins snillingur. Verkið er kafkaísk svört kómedía, sem unnin er upp úr reynslu listamanna leikhópsins og upplifun þeirra af umsóknarferli innan hins íslenska innflytjenda kerfis.
Eftir frábærar viðtökur sýninganna á Opening Ceremony (desember 2019, Tjarnarbíó), Polishing Iceland (mars 2020, Tjarnarbíó) og Ég kem alltaf aftur (ágúst 2020, Listahátíð í Reykjavík) er alþjóðlegi leikhópurinn aftur á leið á svið. Hópurinn starfar undir stjórn pólsk-íslenska dúettsins, rithöfundarins Ewa Marcinek og leikhús- og óperuleikstjórans Pálínu Jónsdóttur. Djöfulsins snillingur verður frumsýnt 30. mars 2023 í Tjarnarbíói.
„Ég er listamaður. Ég heyrði að ykkur vantaði einn slíkan.”
Djöfulsins snillingur er fjöltyngdur samruni texta, líkamlegs leikhúss, sjónlistar og tónlistar, innblásið af „Inferno” eftir Dante og „Babettes Gæstebud” eftir Karen Blixen. Söguhetjan, Uriela, sem nýkomin er til Íslands, sækist eftir áheyrnarprufu hjá Þjóðsirkúsnum. Í stað þess að komast inn í listaelítuna fellur hún í hringiðu kostulegra umsóknar- og auðkenningarferla, sem vélrænt sjálfsafgreiðslukerfi Krónunnar sér um að meta.