Heimsleikhús

Alþjóðlega leikfélagið REYKJAVÍK ENSEMBLE var stofnað haustið 2019 af Pálínu Jónsdóttur leikstjóra, sem er listrænn stjórnandi félagsins, og samstarfskonu hennar Ewu Marcinek, verkefnastjóra og rithöfundi. Leikfélagið er fyrsta og eina sjálfstætt starfandi heimsleikhúsið á Íslandi og það vinnur nýsköpunar-og frumkvöðlastarf með því að búa til virkan atvinnuvettvang innan leiklistarinnar fyrir fjölþjóðlega og íslenska listamenn , óháð uppruna, kyni og tungumáli.


Leikfélagið þróar og framleiðir skapandi sýningar úr frumsömdum, nútíma og klassískum verkum sem eiga erindi við fjölbreyttan og fjölþjóðlegan áhorfendahóp íslensks samfélags. Starfsemi Reykjavík Ensemble byggir á fastri efnisskrá sem byggir á verkefnavali hvers leikárs í senn. Leikár félagsins er skipulagt og starfrækt á ársgrundvelli. 

Reykjavíkurborg útnefndi REYKJAVÍK ENSEMBLE Listhóp Reykjavíkur árið 2020 og leikfélagið var tilnefnt til nýsköpunarverðlauna Grímunnar sem SPROTI ÁRSINS. Ísland pólerað var valin ein af bestu leiksýningum ársins 2020 af leiklistargagnrýnendum Morgunblaðsins.


Mynd Páll Stefánsson

Pálína Jónsdóttir

Pálína er leikhús-og óperuleikstjóri. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í leikstjórn frá leikstjórnardeild Columbia háskólans í New York árið 2017, þar sem hún hlaut námstyrki og viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur. Pálína er stofnandi, listrænn stjórnandi og leikstjóri alþjóðlega leikfélagsins Reykjavík Ensemble.

Vefsíða Pálínu.

Á fyrsta leikári Reykjavík Ensemble þróaði og framleiddi félagið þrjár sýningar sem allar voru byggðar á rannsóknarefni á sviði menningarlegrar fjölbreytni.

Reykjavík Ensemble nýtur virðingar og stuðnings samfélagins og hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín. Verkefnavalið og sýningarnar eru rómaðar af leiklistargagnrýnendum og áhorfendum fyrir sterkt ákall og erindi við íslenskt samfélag og þykja sýningarnar bera með sér sterk listræn og vitsmunaleg höfundareinkenni, framsett af næmi og skilningi á flókinni stöðu innflytjenda á Íslandi.

Með því að valdefla listamenn og áhorfendur óháð uppruna, tungumáli og kyni styður leikfélagið við menningarlega fjölbreytni á Íslandi. Meginmarkmið leikfélagsins er að sameina fólk frá mismunandi menningu og uppruna og skapa faglegt avinnuleikhús með hag hins fjölbreytta fjölþjóðlega samfélags sem við búum í fyrir brjósti.