Djöfulsins snillingur

Ný svört kómedía eftir Reykjavík Ensemble sem fjallar um árekstra milli sjálfsmyndar listamanns og raunveruleika innflytjanda.

Alþjóðlegi leikhópurinn Reykjavík Ensemble skapar ný frumsamin sviðslistaverk með og fyrir fjölþjóðlega og fjöltyngda listamenn hér á landi, í samstarfi við íslenskt sviðslistafólk. Hópurinn vinnur nú að sínu fjórða leikverki Djöfulsins snillingur. Verkið er svört kómedía, sem unnin er upp úr reynslu listamanna leikhópsins og upplifun þeirra af umsóknarferli innan hins íslenska innflytjenda kerfis.

Eftir frábærar viðtökur sýninganna á Opening Ceremony (desember 2019, Tjarnarbíó), Polishing Iceland (mars 2020, Tjarnarbíó) og Ég kem alltaf aftur (ágúst 2020, Listahátíð í Reykjavík) er alþjóðlegi leikhópurinn aftur á leið á svið. Hópurinn starfar undir stjórn pólsk-íslenska dúettsins, rithöfundarins Ewa Marcinek og leikhús- og óperuleikstjórans Pálínu Jónsdóttur. Djöfulsins snillingur verður frumsýnt 30. mars 2023 í Tjarnarbíói.

Djöfulsins snillingur er fjöltyngdur samruni texta, líkamlegs leikhúss, sjónlistar og tónlistar, innblásið af „Inferno” eftir Dante og „Babettes Gæstebud” eftir Karen Blixen. Söguhetjan, Uriela, sem nýkomin er til Íslands, sækist eftir áheyrnarprufu hjá Þjóðsirkúsnum. Í stað þess að komast inn í listaelítuna fellur hún í hringiðu kostulegra umsóknar- og auðkenningarferla, sem vélrænt sjálfsafgreiðslukerfi Krónunnar sér um að meta. 

Djöfulsins snillingur er framleitt af Reykjavík Ensemble í samstarfi við Tjarnarbíó. Verkefnið er styrkt af Reykjavíkurborg, Sviðslistasjóði, Nordisk Kulturkontakt og Nordisk Kulturfond.

Frá stofnun leikhópsins árið 2019 hefur Reykjavík Ensemble beitt sér fyrir samfélagslegri þátttöku og inngildingu í sviðslistum og leikhúsi. Yfir áttatíu alþjóðlegir flytjendur hafa tekið þátt í fjöltyngdum og fjölmenningarlegum verkum þeirra í samstarfi við íslenskt sviðslistafólk. Þetta eru listamenn sem búa og starfa á Íslandi og eru fulltrúar mismunandi þjóðarbrota. Stofnendur leikhópsins, Pálína Jónsdóttir og Ewa Marcinek, notuðu sýningarbannið sem Covid-faraldurinn knúði fram til þátttöku í alþjóðlegum samstarfsverkefnum. Um þessar mundir tekur Reykjavík Ensemble þátt í tveimur Eramus+ evrópskum rannsóknarverkefnum um inngildingu í gegnum listir, er í tveimur norrænum samstarfsverkefnum og er í stjórn New Nordic Network, tengslaneti fagfólks í sviðslistum með alþjóðlegan bakgrunn.

Previous
Previous

Æfingar á sviðsverkinu Djöfulsins snillingur eru hafnar.